Samfélög fanga í fangelsum landsins hafa farið harðnandi á undanförnum árum. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, telur að hækkandi hlutfall fanga sem sitja saman inni fyrir brot á borð við alvarleg ofbeldisbrot, kynferðisbrot og stórfelld fíkniefnabrot hafi töluverð áhrif í þessa átt. Hlutfall þeirra sem afplána þrjú ár eða fleiri hefur tvöfaldast síðan árið 2004 samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun ríkisins.
Þá hafi lögregla að undanförnu haft hendur í hári glæpagengja sem fara jafnvel í heilu lagi í afplánun. Meðlimum gengjanna sé fært að halda innbyrðis tengslum sínum meðan þeir sitja inni þar sem ekki er kostur á að dreifa þeim vegna fjölda þeirra sem nú afplána dóma. Segir Páll dæmi þess að þegar afplánun ljúki haldi gengin áfram samvinnu og þá jafnvel með fulltingi manna sem meðlimir sátu inni með.
Telur Páll að við núverandi aðstæður í fangelsismálum verði því ekki viðkomið að sundra gengjum og vista fanga í fleiri fangelsum eða deildum. Helst hafi þetta tekist á Litla-Hrauni en hann telur fjölgunina vera slíka að þetta sé ekki mögulegt lengur. Jón segir að hingað til hafi gefist ágætlega að skipta mönnum niður á deildir á Litla-Hrauni.
Með því að þeir sem fremja alvarlegri brot fá forgang í afplánun lengist óhjákvæmilega bið annarra sakfelldra. 156 manns sitja nú inni en 330 manns sem hlotið hafa 425 dóma bíða afplánunar. Eru þess dæmi að menn þurfi að bíða í nokkur ár eftir að afplána dóma.
Fangelsisrefsing fellur niður þegar fimm til tuttugu ár eru liðin frá dómsuppkvaðningu, allt eftir til hve langrar fangavistar hinn sakfelldi var dæmdur. Segir Páll að reynt sé að komast hjá því að refsing falli niður með þessum hætti. Þó geti verið bagalegt þegar menn séu boðaðir til afplánunar löngu eftir dóm; þeir hafi jafnvel snúið við blaðinu og bætt ráð sitt.
Nýtt fangelsi segir Páll að myndi koma böndum á þennan vanda og einnig sporna við miklum samgangi og samþjöppun manna sem framið hafa alvarleg brot. Segir Páll að nýtt fangelsi gæti hreinlega leyst þennan vanda með öllu.
Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti hyggst láta bjóða út byggingu nýs fangelsins í október næstkomandi og er undirbúningur útboðs þegar hafinn. Stefnt er að því að í fangelsinu verði 56 fangarými.