Hækkar í Hvanná

hag / Haraldur Guðjónsson

Talsverð úrkoma hefur verið undir Eyjafjöllum og í Mýrdal í dag en á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoma 33 mm frá klukkan 9 í morgun og til klukkan 18. Ekki hefur verið tilkynnt um mikla hækkun í ám á svæðinu en Almannavarnir vöruðu við aukinni hættu á eðjuflóðum vegna úrkomu í morgun.

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands hefur ekki mælst óvenjumikil rigning á svæðinu í dag. Á Vatnsskarðshólum var úrkoman 18mm frá klukkan 9 til 18. 

Þessar veðurstöðvar séu hins vegar nokkuð frá Eyjafjallajökli og búast megi við að mun meira hafi rignt á og við jökulinn.

Þá hækkaði yfirborð Hvannár, í Þórsmörk um 4 cm milli klukkan 15 og 18 sem gæti bent til að úrkoma sé að aukast á hálendinu.

Enn rignir þó og er annað úrkomusvæði að nálgast sem mun ganga yfir í kvöld og má því búast við talsverðri úrkomu fram að miðnætti.

Vegna úrkomunnar er aukin hætta á eðjuflóðum frá Eyjafjallajökli en í tilkynningu sem Almannavarnir sendu frá sér í morgun var varða við hættu á eðjuflóðum vegna ösku sem er á og í hlíðum Eyjafjallajökuls.

Það sé því nokkur hætta flóðum vatns og ösku í ánum sem renna frá jöklinum.

Vegfarendur um Suðurlandsveg (þjóðveg 1) og um veginn inn í Þórsmörk eru beðnir um að sýna aðgát

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka