Mjög bakteríuríkt vatn

Einar Falur Ingólfsson

„Mér finnst þetta mjög einkennilegar skýringar. Það er skýrt ákvæði í starfsleyfisskilyrðum fyrirtækisins um þessa þætti, hvar megi losa og slíkt,“ segir Birgir Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á Suðurlandi.

Hann hafði samband við eiganda Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands eftir að Stöð 2 skýrði frá því að sumarbústaðaeigandi hefði séð starfsmenn fyrirtækisins losa svokallaðan seyruvökva út í móa.

Sá náði jafnframt myndum af tankbíl frá fyrirtækinu sem var lagt á víðavangi og slanga lá út í móa þar sem gráleitur vökvi seytlaði út og hafði grasblettur í kring litast eða sviðnað. 

Eigandi Holræsa- og stífluþjónustunnar tjáði Birgi að um óvana starfsmenn hefði verið að ræða en að sjálfur hefði hann ekki haft hugmynd um að svæðið væri vatnsverndarsvæði.

„Þetta er bara klóakvatn, sem búið er að fjarlægja úr megnið af föstum efnum. Þetta er mjög bakteríuríkt vatn,“ segir Birgir en tæknin sem fyrirtækið notar er þess eðlis að bílarnir dæla upp úr rotþróm og fer innihaldið í skilvindu sem aðskilur föst efni og vökva.

Vökvanum, svokölluðum seyruvökva, á svo að dæla aftur ofan í rotþróna.

„Þetta er mjög sérstakt vatnsverndarsvæði, þarna við Þingvallavatn, og um það gilda mjög strangar reglur, í samræmi við lög um vatnsverndarsvæði Þingvallavatns og reglugerð um það,“ segir Birgir.

„Síðan hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands verið með verklagsreglur um hvað má og hvað má ekki, og þetta er eiginlega strangasta vatnsverndarsvæði landsins.“

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands mun hefja rannsókn á málinu strax í fyrramálið, skoða vettvanginn og taka sýni úr vatnsbólum á svæðinu.

„Við höfum gert mikið til að bæta mengunarvarnir á svæðinu svo mér finnst mjög sárt að heyra af svona.“

Birgir Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á Suðurlandi
Birgir Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á Suðurlandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert