Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF er á leið til landsins aftur eftir að hafa sinnt mengunareftirliti á Mexíkóflóa fyrir bandarísku strandgæsluna og BP.
Vélin er á leið frá Houma í Louisiana en millilenti í Syracuse í New York fylki og Goose Bay á Nýfundnalandi.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni hefur hún lengi átt í góðu samstarfi við bandarísku strandgæsluna, sem hefur yfirumsjón með mengunareftirliti á Mexíkóflóa.
TF-SIF var fengin til að leysa af flugvél samgöngustofnunar Kanada en þeirra flugvél er sömu tegundar og TF-SIF og eru þær báðar búnar öflugum hliðarradar.
Von er á TF-SIF til Reykjavíkur um klukkan hálf tíu í kvöld en hún mun stoppa stutt við á Íslandi því um næstu helgi heldur vélin til Dakar í Senegal til að sinna áframhaldandi eftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins.