Nokkuð hörð aftanákeyrsla þriggja bíla varð á Vesturlandsvegi, rétt við Lyngholt, um fimmleytið í dag. Meiðsl á fólki eru minniháttar og aðallega undan bílbeltum en nokkrar umferðartafir urðu í kjölfar óhappsins.
Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi voru veðurskilyrði góð og vegurinn þurr. Svo virðist sem fremsti bíllinn hafi hægt mikið á sér, sennilega til að beygja, svo næsti bíll ók aftan á hann. Þriðji bíllinn lenti svo aftan á þeim bíl.
Tveir aftari bílarnir skemmdust mest og sá aftasti talsvert mikið. Draga þurfti þessa tvo bíla af vettvangi og var annarri akreininni lokað um tíma og báðum akreinum í stutta stund.
Sköpuðust nokkrar umferðartafir þess vegna en segir lögregla að umferð á svæðinu sé nú komin í fyrra horf.
Bílstjórar og farþegar í bílunum voru allir í bílbeltum og telur lögregla því að þakka að meiðsli urðu einungis minniháttar.