Færeysk lyf til Íslands?

Sverrir Vilhelmsson

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, mun heimsækja færeyska lyfjaverksmiðju í vikunni og skoða möguleika á lyfjainnflutningi frá Færeyjum. Að sögn færeyska útvarpsins vonast Færeyingar til þess að geta  útflutning á lyfjum til Íslands á næsta ári.

Tilefni ferðar Álfheiðar er undirritun samnings um heilbrigðisþjónustu milli Færeyja og Íslands.

Um er að ræða alhliða samning um bráðaþjónustu, handlækningar og skurðlækningar sem hefur verið í undirbúningi í langan tíma.

Álfheiður segir þó ekkert hafa verið ákveðið varðandi lyfjainnflutning frá Færeyjum.

„En það er rétt að ég hef óskað eftir því að fá að kynnast lyfjamálum í Færeyjum, sérstaklega innrennslislyfjaverksmiðjunni sem þeir eru nýbúnir að koma á laggirnar.“

Samkvæmt frétt færeyska útvarpsins hefur útflutningurinn til Íslands strandað á því að lyfjaverksmiðjan þar uppfyllti ekki alþjóðlegar kröfur. 

Stefnt er að því að ráða bót þar á fyrir árslok og gæti því lyfjaútflutningur til Íslands hafist á næsta ári.

„Við flytjum inn lyf frá mjög mörgum löndum og ef frændur okkar Færeyingar geta selt okkur góð lyf á góðu verði þá stendur áreiðanlega ekki á Íslendingum að versla við þá,“ sagði Álfheiður í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert