Flæddi inn í sendiherrabústaðinn

Vatn flæddi inn í kjallara sendiherrabústaðarins í Kaupmannahöfn.
Vatn flæddi inn í kjallara sendiherrabústaðarins í Kaupmannahöfn.

Vatn flæddi inn í kjallara íslenska sendiherrabústaðarins í Kaupmannahöfn í gær og var hann allur undirlagður af vatni, en mikil rigningaveður hafa verið að undanförnu á Sjálandi sem valdið hafa flóðum á ákveðnum stöðum í borginni. Sendiherrabústaðurinn er að Fuglebakkevej á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn.

„Við notuðum gærdaginn í að ausa kjallarann. En það varð ekkert tjón af því og okkur varð ekkert meint af. Þetta hafa sennilega verið tæplega þúsund lítrar sem við tókum úr honum,“ segir Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Danmörku.

Sturla segir að engar tilkynningar hafi borist sendiráðinu frá Íslendingum búsettum í Kaupmannahöfn vegna flóðanna. Hann segist gera ráð fyrir því að þeir sem hafi lent í einhverju hafi einfaldlega afgreitt málið sjálfir.

„Þá hefur ekki verið um að ræða neitt lífshættulegt eða stórtjón. Þetta er helst fólk sem er með hús og þá kjallara. En fólk gengur þá bara í málið og hefur samband við sitt tryggingafélag allt eftir aðstæðum,“ segir Sturla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka