Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sat fyrir svörum á þingflokksfundi Samfylkingarinnar fyrr í dag. Hann hefur undanfarið verið borinn sökum um að hafa leynt vitneskju sinni um lögfræðiálit sem Seðlabankinn lét vinna og varða ólögmæti gengistryggðra lána. Gylfi sagðist taka ásakanir um lygar nærri sér.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kvaðst óánægð með vinnubrögð Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Hún hafi aldrei fengið álitin í hendur. Huga þurfi að bættum boðleiðum innan stjórnsýslunar.
Eftir fundinn tjáði Gylfi blaðamönnum að hann myndi sitja áfram í ríkisstjórn væri þess óskað en hann hafi ekki tekið neina ákvörðun um afsögn. Það hafi þó aldrei verið sér kappsmál að gegna ráðherraembætti. Upphaflega hafi aðeins staðið til að hann gegndi embættinu um þriggja mánaða skeið.
Jóhanna Sigurðardóttir, lýsti eftir fundinn yfir fullum stuðningi við Gylfa. Hún telur hann hafa orðið fyrir ómaklegum árásum undanfarið og að hann hafi skýrt mál sitt vel.