Lögregla fái auknar rannsóknarheimildir

Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindamálaráðherra, ætlar að fela réttarfarsnefnd að undirbúa tillögur um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Fram kom í Fréttablaðinu í dag, að þetta feli í sér að lögregla fái heimildir til að rannsaka einstaklinga án þess að grunur sé um ákveðið brot.

Ragna segir við blaðið, að hún hafi verið mikil efasemdamanneskja og talið að það ætti fremur að halda að sér höndum í þessum efnum heldur en hitt. En eftir að hafa fengið ákveðnar greiningar, upplýsingar og gögn, meðal annars um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, telji hún ekki stætt á öðru en að bregðast við.

Ráðherra segir að  forvirkum rannsóknarheimildum verði að fylgja skýrt eftirlit. Það geti verið í höndum þingnefndar eða sérstakrar deildar innan dómstóls.

Brynjar Níelsson, lögmaður, sagði í fréttum Útvarpsins, að hann hefði miklar efasemdir um þetta og óttaðist að friðhelgi einkalífsins verði ógnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert