Lyfjasala á fyrri helmingi þessa árs er heldur minni en á sama tíma í fyrra. Á fyrra helmingi þessa árs seldust 82,1 milljón skilgreindir dagskammtar lyfja samanborið við 83,1 milljón á sama tímabili í fyrra. Samdrátturinn nemur 1,2%.
Í frétt frá Lyfjastofnun kemur fram að verðmæti sölunnar var 13 milljarðar króna en voru tæpir 12,9 milljarðar á fyrra helmingi ársins 2009 og hefur kostnaður því aukist um 1,2% milli tímabila, reiknað á smásöluverði með vsk.
Heildarsala lyfja allt árið 2009 nam 26,1 milljarði króna.
Sala í stærsta lyfjaflokknum, hjarta- og æðasjúkdómalyfjum, dróst saman um 9,5% reiknað í dagskömmtum fyrstu sex mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Heildarkostnaður þessa flokks reiknaður á smásöluverði með vsk. dróst saman um 18,2%.
Mestu fé verja Íslendingar í tauga- og geðlyf eða 3,6 milljörðum sem er 27,8% af heildarlyfjakostnaði fyrri hluta 2010, reiknað á smásöluverði með vsk. Þetta er 3% aukning frá síðasta ári en 2,3% aukning reiknað í dagskömmtum.