Reyndi að sturta maríjúana í klósettið

Par var handtekið í íbúð á Selfossi í síðustu viku vegna gruns um að fólkið hefði dreift fíkniefnum. Um 60 grömm af  maríjúana fundust í íbúðinni og  hafði efninu verið pakkað í sölueiningar.  Eigandi efnisins var í óðaönn að týna það í klósettið þegar lögregla fór inn í íbúðina en tókst ekki að koma því undan.  

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar kemur einnig fram, að í liðinni viku fannst kannabisræktun í íbúðarhúsi í Flóahreppi. Um lítið magn var að ræða og fær málið hefðbundna meðferð að lokinni rannsókn.  

Þá fann lögregla nokkrar fáar en gróskumiklar plöntur í bílskúr í Hveragerði. Að sögn lögreglu voru plönturnar í umsjá sambýlisfólks sem býr í íbúðarhúsinu, sem skúrinn tilheyrir.   Þar fundust einnig áhöld til neyslu fíkniefna og merki um neyslu á hvítum efnum.   Aðilar þessara mála hafa kannast við brot sín við yfirheyrslur hjá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert