Skæðir skógareldar á Spáni

Tveir slökkviliðsmenn hafa farist í miklum skógareldum í Galisíu á Norðvestur-Spáni. Slökkviliðsmenn héldu áfram að berjast við skógareldana í dag en um 750 hektarar skóglendis hafa brunnið til kaldra kola í eldunum.

Tekist hafði að ná stjórn á eldunum á tveimur stöðum í Muxia og Camarins í dag, en búið var að slökkva elda sem brunnið höfðu í Baiona, Vmianzo og Santa Comba. 

Eldur sem kviknaði nálægt borginni La Coruna aðfaranótt sl. sunnudags brann enn í morgun og hafði eyðilagt skóg á 450 hektara svæði. 

Slökkviliði á svæðinu hefur borist liðsauki meira en 200 hermanna og fimmtán vatnsflutningaflugvéla sem sleppa vatni yfir eldana.  Slökkviliðsmennirnir tveir sem urðu eldinum að bráð fórust á föstudaginn var. Grunur leikur á að sá eldur hafi verið viljandi kveiktur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert