Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segist ekki hafa tekið ákvörðun um afsögn. Hann býst þó ekki við að gegna ráðherraembætti mjög lengi í viðbót og það sé honum ekkert kappsmál að sitja sem ráðherra um árabil.
„Það er mér ekkert kappsmál að vera ráðherra, ég sóttist ekki eftir þessu starfi. Ég tók það að mér vegna þess að ég hélt að ég gæti gert gagn og ég vona að sagan sýni að ég hafi gert það.“
Upphaflega hafi staðið til að hann gegndi embættinu um þriggja mánaða skeið. Nú hafi hann verið ráðherra í eitt og hálft ár.
Gylfi sat fyrir svörum á þingflokksfundi Samfylkingarinnar fyrr í dag þar sem rædd voru gengislánamál og meint vitneskja hans um lögfræðiálit Seðlabankans um ólögmæti lánanna.