Vilja ræða um Norðlingaölduveitu í iðnaðarnefnd

Horft til Hofsjökuls.
Horft til Hofsjökuls. mbl.is/RAX

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd Alþingis hafa óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta þar sem fjallað verði um Norðlingaölduveitu. Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að ríkisstjórnin hyggust beita sér fyrir því að öll áform um Norðlingaölduveitu verði slegin út af borðinu.

Þeir Tryggvi Þór Herbertsson og Jón Gunnarsson segja að Norðlingaölduveita þarfnist þess að einungis um 2-3 ferkílómetrar ógróins lands hverfi undir vatn og verði það lón langt utan friðlandsins um Þjósárver. Áætlað sé að virkjun á þessum stað geti gefið allt að 600 gígawattstundir með lágmarks umhverfisáhrifum og kostnaði. Það sé mikil breyting frá fyrri áformum þegar áætlað var að lónið væri mun stærra og teygði sig inn í friðlandið um Þjórsárver.

„Það er lífsnauðsynlegt í ljósi efnahagshorfa á Íslandi að hægt sé að útvega rafmagn til atvinnuuppbyggingar og er Norðlingaölduveita einn besti kosturinn sem er í boði út frá umhverfissjónarmiðum," segir í tilkynningu frá þeim Tryggva Þór og Jóni. 

Segjast þeir, í ljósi þeirra ólýðræðislegu vinnubragða ríkisstjórnarinnar að breyta rammaáætlun án pólitískrar umræðu, fara fram á að málið verði sett á dagskrá iðnaðarnefndar hið fyrsta. Óska þeir eftir því að ráðherrar umhverfis- og iðnaðarmála verði kallaðir fyrir nefndina auk fulltrúa Landsvirkjunar og sveitarfélaga á svæðinu sem um ræðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert