Ungmennum yfir 18 ára aldri sem nú eru á atvinnuleysisskrá verður tryggð námsvist í framhaldsskólum. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu um samstarf menntamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins í þessu skyni. Um 190 einstaklinga er að ræða.
Félags- og tryggingamálaráðherra mun beita sér fyrir því að fé verði veitt úr Atvinnuleysistryggingarsjóði til þess að mæta viðbótarkostnaði framhaldsskólanna vegna skólavistar ungmennanna.
Þá mun mennta- og menningarmálaráðherra stuðla að því að framhaldsskólar bjóði námsúrræði fyrir þennan hóp umsækjenda og verða gerðir samningar við Vinnumálastofnun um greiðslur fyrir þá þjónustu. Málið var tekið fyrir og samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun. Verkefnið er framhald verkefnisins Ungt fólk til athafna sem hleypt var af stokkunum um áramót.
Samkvæmt upplýsingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru um 850 umsækjendur eldri en 18 ára sem ekki hefur verið tryggð skólavist í framhaldsskóla í haust. Um 190 ungmenni úr þessum hópi eru á atvinnuleysisskrá og er kynjaskipting þeirra jöfn. Stærstur hluti þessa fólks býr á höfuðborgarsvæðinu og hefur sóst eftir því að komast á verknámsbrautir í framhaldsskólum.