Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur óskað eftir því að vera færður úr starfi yfirmanns kynferðisbrotadeildar LRH. Hefur lögreglustjóri þegar fallist á þá beiðni. Kemur beiðnin í kjölfar ummæla hans sem birtust í DV í gær. Hefur Björgvin beðist afsökunar á ummælum sínum.
Í DV birtust í gær ummæli höfð eftir yfirmanni kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þau ummæli endurspegla á engan hátt afstöðu eða viðhorf embættisins til kynferðisbrota eða fórnarlamba slíkra brota. Harmar embættið þessi ummæli og biðst jafnframt afsökunar á þeim, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.
„Það er jafnframt mat yfirmanns kynferðisbrotadeildarinnar að ummælin séu til þess fallin að skaða trúverðugleika rannsókna lögreglunnar á þessu viðkvæma og mikilvæga sviði og það harmi hann. Í því ljósi hefur hann beðist afsökunar á þeim og óskað eftir því að vera færður úr starfi yfirmanns kynferðisbrotadeildar LRH. Hefur lögreglustjóri þegar fallist á þá beiðni.
Rannsóknir kynferðisbrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu munu því frá deginum í dag heyra beint undir yfirmann rannsóknardeilda LRH, Friðrik Smára Björgvinsson yfirlögregluþjón," segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Í DV í gær var fjallað um nauðganir og fjölgun þeirra á síðustu misserum. Var m.a. haft eftir Björgvin, að oftar en ekki væru þessi mál tengd mikilli áfengisdrykkju og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem væri útsettur fyrir að því að lenda í einhverjum vandræðum.
„Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðinni yfir á þá. Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér," hafði blaðið eftir Björgvin.