Fyrirtöku máls níumenningana var frestað rétt í þessu en hún hófst klukkan hálf níu í morgun. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður, krafðist þess í upphafi fyrirtökunnar að dómari viki vegna hlutdrægni.
Ragnar taldi hlutdrægnina birtast í því að dómari hafi kallað eftir aðstoð lögreglu fyrirfram án þess að víst mætti telja að til átaka gæti komið.
„Ég hef fengið það staðfest að dómari ásamt dómstjóra kölluðu til marga, ef ekki tugi, lögreglumanna,“ segir Ragnar sem kveður dómstólinn þannig hafa ákveðið fyrirfram að skjólstæðingar hans væru hættulegir.
Niðurstaða dómsins í mati sínu á hæfi dómara má vænta á næstu dögum. Ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að dómarinn sé hæfur kveður Ragnar það vilja skjólstæðinga sinna að skjóta því mati til Hæstaréttar.