Lögmaður mannsins, sem var um tíma í haldi lögreglu vegna rannsóknar á morðmáli, fordæmir að tilteknir fjölmiðlar hafi birt nafn mannsins og mynd af honum. Manninum var sleppt úr haldi í dag.
Yfirlýsingin, sem Guðrún Sesselja Arnardóttir, hrl., sendi frá sér nú síðdegis, er eftirfarandi:
Undirrituð var kölluð til sem verjandi ungs manns vegna manndrápsmáls í Hafnarfirði um helgina. Að gefnu tilefni skal áréttað, að skjólstæðingi mínum hefur verið sleppt úr haldi lögreglu, án þess að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Það ber að fordæma þau forkastanlegu vinnubrögð sem ákveðnir fjölmiðlar hafa viðhaft í þessu máli og þá sérstaklega ótímabæra nafn- og myndbirtingu af skjólstæðingi mínum. Gera verður þá kröfu til fjölmiðla að þeir hafi í heiðri þá meginreglu réttarfarslaga að maður sé saklaus uns sekt telst sönnuð og á það sérstaklega við þegar hvorki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir viðkomandi, né heldur gefin út ákæra.