Ísland veitir aðstoð

Reuters

Íslensk stjórnvöld munu veita 23 milljónir króna til neyðaraðstoðar á hamfarasvæðunum í Pakistan. 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kynnti þessa ákvörðun á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Framlag Íslands skiptist þannig að 15 milljónir króna munu renna til verkefna Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og 8 milljónir til verkefna á vegum félagasamtaka.

„Fylgt er verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við frjáls félagasamtök við úthlutun styrkja og skulu umsóknir félagasamtaka berast utanríkisráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 20. ágúst kl. 12:00 á netfangið fridargaesla@utn.stjr.is“

Þá segir í tilkynningunni að ástandið í Pakistan sé mjög alvarlegt og áætlað að meira en 1300 manns hafi látist í hamförunum.

Áhrif flóðanna séu víðtæk og mikil hætta á að dánartíðni eigi eftir að aukast, m.a. vegna aukinnar sjúkdómahættu. Um sex milljónir manna þarfnist matvælaaðstoðar.

Einnig séu samgöngur á hamfarasvæðunum lamaðar, yfir 4500 bæir farið undir vatn og margir íbúar án húsaskjóls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert