Fréttaskýring: „Leyniþjónusta“ enn upp á yfirborðið

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.

Umdeildar hugmyndir um að rýmka rannsóknarheimildir lögreglunnar eru aftur komnar upp á yfirborðið. Þær hafa áður verið settar fram en þá fengið harða gagnrýni, m.a. þá að verið sé að brjóta á réttindum fólks til einkalífs og gera Ísland að lögregluríki með leyniþjónustu að störfum.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra viðraði þessar hugmyndir í viðtali í Fréttablaðinu í gær, þar sem fram kom að hún ætlaði að fela réttarfarsnefnd að undirbúa tillögur um svonefndar forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Með forvirkum rannsóknarheimildum er átt við rannsókn á málum án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsivert athæfi, m.a. með hlerunum og annarri upplýsingaöflun, þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir afbrot og fylgjast með atferli sem getur ógnað öryggi almennings og ríkisins.

Ragna segir við Morgunblaðið að þetta þurfi ekki að kalla á breytingu á rannsóknaraðferðum lögreglu. Til greina komi að gera þá kröfu að slíkar heimildir verði alltaf háðar því skilyrði að áður liggi fyrir úrskurður dómara.

Vaxandi áhyggjur

Forveri Rögnu í embætti og fyrrverandi yfirmaður hennar í dómsmálaráðuneytinu, Björn Bjarnason, lagði fyrir tæpum tveimur árum fram drög að frumvarpi um öryggis- og greiningarþjónustu, nokkurs konar leyniþjónustu, þar sem getið er um forvirkar rannsóknarheimildir. Breyta þarf lögum til að lögregla fái slíkar heimildir en þessi áform náðu ekki fram að ganga á Alþingi, um það leyti sem bankakerfið hrundi.

Tveimur árum fyrr, eða 2006, hafði lögreglulögum verið breytt í þá veru m.a. að heimila ríkislögreglustjóra að starfrækja greiningardeild.Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók svo til starfa í ársbyrjun 2007 en henni er ætlað að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, eins og það er orðað í fimmtu grein lögreglulaga.

Greiningardeildin gaf út sitt fyrsta hættumat í skýrslu til dómsmálaráðherra sumarið 2008. Þá var lítil hætta talin á hryðjuverkum hér á landi en hins vegar lögð þung áhersla á aukin umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa á Íslandi. Jafnframt voru íslenskir afbrotamenn taldir stórtækir í skipulögðum glæpahópum. Í hættumatsskýrslun deildarinnar síðan þá, nú síðast í mars sl., hefur vaxandi áhyggjum verið lýst af skipulagðri glæpastarfsemi hér, eins og mansali, vændi, peningaþvætti og fíkniefnasmygli. Hætta á hryðjuverkum er enn talin lítil.

Ragna segist hafa fengið þær upplýsingar að lögregla þurfi auknar rannsóknarheimildir. Bendir hún á að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali komi fram að í tengslum við rannsókn og kortlagningu mansalsmála hér landi og tengsl við erlenda og skipulagða brotastarfsemi, verði að meta þörf lögreglu fyrir heimildir til forvirkra rannsóknaraðgerða. Það sé á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins. Þá hafi fyrr í sumar gengið dómar þar sem einstaklingar voru dæmdir fyrir mansalsbrot. „Allt þetta er ástæða þess að nú hefur verið ákveðið að kalla eftir tillögum réttarfarsnefndar um þetta úrræði,“ segir Ragna. Spurð hverjir fái þessar heimildir innan lögreglunnar segir hún réttarfarsnefnd þurfa að skoða það. Tillögur nefndarinnar verði svo skoðaðar af ríkisstjórn og stjórnarflokkunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert