Mótmæltu við stjórnarráðshúsið

Mótmælt við stjórnarráðsbygginguna í morgun
Mótmælt við stjórnarráðsbygginguna í morgun mbl.is/Jakob Fannar

Nokkrar vinkonur Helgu Bjargar Magnúsar- og Grétudóttur komu saman við stjórnarráðsbygginguna í morgun áður en ríkisstjórnarfundur hófst. Vildu þær með þessu sýna henni samstöðu en lögregla hafði afskipti af henni þar í síðustu viku.
 

Höfðu starfsmenn forsætisráðuneytisins samband við lögreglu í síðustu viku og kvörtuðu undan mótmælum Helgu og töldu mótmælin trufla ríkisstjórnarfund sem þá stóð yfir. Hún var handtekin og færð á lögreglustöð vegna þess að hún gaf ekki upp nafn sitt.

Lögreglan er með mann á vakt í forsætisráðuneytinu. Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri sagði í samtali við Morgunblaðið  að starfsmenn hafi leitað til hans vegna konu sem var að mótmæla við stjórnarráðshúsið. Hún hafi verið upp við húsið með flautu og hróp. Þar sem lögreglumaðurinn hafi talið ómögulegt að tjónka við konuna hafi hann kallað eftir aðstoð félaga sinna. Þeir hafi beðið hana um að færa sig frá húsinu en hún hafi neitað að hlýða. Þá hafi hún ekki viljað gera grein fyrir sér þegar lögreglan leitaði eftir því og hafi verið handtekin og færð á lögreglustöð af þeim sökum. Þar hafi málið skýrst og konuninni verið sleppt.

 Mótmælandinn var kominn á sama stað eftir fáeinar mínútur og aftur var kvartað til lögreglu. Sömu menn fóru á staðinn. Eftir nokkur orðaskipti varð hún við tilmælum þeirra um að færa sig og segir Hörður að með því hafi málið verið leyst.

Hörður tekur það fram að lögreglan hafi ekki haft afskipti af konuninni vegna þess að hún hafi verið að mótmæla eða gefa fuglum við stjórnarráðshúsið, heldur vegna þess að starfsmenn ráðuneytisins hafi talið hana trufla starfsemi í húsinu með hávaða. Þarna séu oft mótmæli og uppákomur af ýmsu tagi en fólkið hafi þá yfirleitt látið duga að fara upp í tröppurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka