Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða, segir að umhverfisráðherra geti ekki ein og án samráðs við neinn tekið ákvörðun um að taka Norðlingaölduveitu út úr rammaáætlun.
Fyrir Alþingi liggur núna frumvarp um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða. Í því er gert ráð fyrir að verkefnisstjórn flokki svæði í þrjá flokka, friðun, nýtingu og svokallaðan biðflokk. Þar með öðlast vinna rammaáætlunar, sem hófst árið 2003, stjórnskipulega stöðu. Verkefnisstjórn getur ekki flokkað virkjunarkosti fyrr en frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að það sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar í náttúruverndarmálum að hætt verði við Norðlingaölduveitu og vill að veitan verði tekin út úr rammaáætlun.
„Það er ekki búið að taka Norðlingaölduveitu út fyrir rammaáætlun. Þó að umhverfisráðherra hafi talað um að gera það hefur það ekkert gildi umfram það að við vitum hverjar hennar skoðanir eru á málinu, en hún þarf að hafa samstarf við ýmsa aðila til að gera þetta,“ sagði Svanfríður.
Svanfríður sagði mikilvægt að hafa í huga að það að svæði færi í gegnum rammaáætlun gæti haft í för með sér að svæði færi í friðunarferli. „En ef menn treysta því ekki að svæði sé það dýrmætt að það fari í friðunarferli með því að fara í gegnum rammaáætlun geta menn kannski beitt öðrum aðferðum. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvernig það á að gerast.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.