Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) um að félagið fái greiddar verðbætur á samning vegna byggingar sundlaugar og viðbyggingar við íþróttahús á Álftanesi. Var Fasteignafélagið Fasteign hf. dæmd til að greiða ÍAV 112 milljónir króna og þar af nema verðbæturnar samkvæmt dómnum 105 milljónum króna vegna gengishruns krónunnar.
Fasteign hf. samdi við ÍAV um verkið í mars 2008 í kjölfar
útboðs í desember 2007. Samningsfjárhæðin var tæpar 604 milljónir króna og var m.a. tekið fram í samningnum að engar
verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum. Deila fyrirtækjanna í kjölfarið snérist síðan um hvort slíkur forsendubrestur hefði orðið, að víkja ætti þessu samningsákvæði til hliðar.
Fram kemur í dómnum, að ÍAV miðaði í tilboðinu við 4% verðbólgu á samningstímanum og hafði þá til hliðsjónar verðbólguspá Seðlabankans. ÍAV segir, að fljótlega eftir að tilboðið var gert hafi verðbólga tekið að hækka verulega og snemmsumars og haustið 2008 hafi gengi krónunnar lækkað verulega. Þá hrundi bankakerfið Íslands haustið 2008 og vísitölur neysluverðs og byggingarkostnaðar hækkuðu hækkað gríðarlega á örskömmum tíma.
Héraðsdómur vísar m.a. til þeirrar niðurstöðu matsmanna, að það óvissuástand sem skapaðist á byggingamarkaði á árinu 2008 vegna óvæntra efnahagsþróunar innanlands hafi orðið til þess að fleiri byggingaraðilar, sem voru með óverðbætta verksamninga, hafi fengið leiðréttingar.
Hefðu Samtök iðnaðarins beitt sér fyrir hönd umbjóðenda sinna og samkomulag náðst við einn stærsta verkkaupa landsins, Reykjavíkurborg, um að taka upp verðbætur miðað við hækkun byggingarvísitölu. Samkomulag þess efnis hafi verið undirritað 23. desember 2008 og samkvæmt því mátti reikna verðbætur á áður óverðbætta verksamninga við Reykjavíkurborg frá 1. mars 2008.
Héraðsdómur segir síðan, að taka verði undir sjónarmið ÍAV, að forsenda fyrirtækisins fyrir umræddu samningsákvæði hafi verið
stöðugt verðlag á meðan á verktímanum stæði. Vegna þeirra miklu hækkana, sem urðu á
byggingarvísitölu og gengi íslensku krónunnar, hafi allar forsendur brostið
fyrir samþykki þess að fjárhæðir tilboðsins á verktímanum væru ekki verðbættar. Því sé ósanngjarnt að bera samninginn fyrir sig að þessu leyti.
Héraðsdómur segir, að miðað við að óverðbættir verkþættir verði verðbættir miðað við ofangreindar forsendur nemi verðbæturnar 105,5 milljónum króna. Að auki var Fasteign dæmd til að greiða ÍAV 6,5 milljónir króna í ýmsan kostnað að frádregnum tafabótum, og 5 milljónir króna í málskostnað.