Mótmælendur létu í sér heyra beggja vegna Lækjargötunnar fyrr í dag. Snemma í morgun voru þeir saman komnir við héraðsdóm Reykjavíkur en síðar færði hópurinn sig fyrir að Stjórnarráðinu.
Til átaka kom í héraðsdómi. Lögreglan meinaði mótmælendum inngöngu í dómssalinn, þar sem mál hinna svokölluðu níumenninga var tekið fyrir. Lögreglan rýmdi anddyri héraðsdóms en þar voru mótmælendurnir, sem kröfðust inngöngu í dómssal. Barið var á glugga, hurðir og hrópað í takt við sláttinn.
Mótmælendurnir fóru þaðan að lokum, en ekki langt. Þeir stilltu sér upp fyrir framan Stjórnarráðið, en þar var fundur ríkisstjórnarinnar ný hafinn. Mótmælendurnir voru að sýna Helgu Björk Magnúsar- og Grétudóttur stuðning, en hún var handtekin fyrir framan stjórnarráðið fyrir viku síðan, meðal annars fyrir að kasta brauði.