Töldu lögfræðiálitin ekki skipta sköpum

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Efasemdir um lögmæti gengistryggingar skuldbindinga í íslenskum krónum höfðu þegar komið fram þegar lögfræðiálit LEX var unnið og voru á almanna vitorði.

Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

„Í því samhengi taldi bankinn það ekki ráða úrslitum um framvindu mála þótt lögmannsstofa og aðallögfræðingur Seðlabankans væru á sömu skoðun og ýmsir aðrir lögfræðingar sem töldu verulegan vafa leika á lögmæti gengisbindingar sem forms verðtryggingar lána í íslenskum krónum.

Að auki væri nánast ógerningur að gera sér grein fyrir því hvað þessi álit lögmanna fælu í sér fyrr en dómur eða dómar hefðu fallið er gæfu nokkra vísbendingu um með hvaða hætti dómstólar myndu skilja hugtakið gengistrygging, enda ljóst að lög bönnuðu ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum.

Þá var í minnisblöðunum ekki lagt mat á hvaða vextir yrðu líklega notaðir þegar lán sem innihalda ólögmæt gengistryggingarákvæði eru gerð upp. Jafnvel eftir að Hæstiréttur hefur dæmt í fyrstu málunum ríkir enn mikil óvissa um hvað dómurinn felur í sér fyrir fjármálakerfið eða almenning í landinu,"segir í svari Seðlabankans til forsætisráðherra vegna minnisblaða um heimildir gengistryggðra lána.

Segir jafnframt í svari bankans að gögnum hafi verið komið til efnahags- og viðskiptaráðuneytis en yfirleitt hafi verið litið þannig á að fagráðuneyti myndu ef á þyrfti að halda, miðla slíkum upplýsingum til forsætisráðherra, ríkisstjórnar eða jafnvel Alþingis, eftir því sem við á hverju sinni. Þetta fyrirkomulag byggir á áratugahefð og hefur verið viðhaft óháð því undir hvaða ráðuneyti Seðlabankinn heyrði hverju sinni.

Lögmenn ráðuneyta og FME gátu sjálf leitað eftir slíku áliti

Segir ennfremur í svari Seðlabankans að  álit eru ekki jafngildi dóma og Seðlabankinn hafði enga afstöðu tekið til álitanna, enda gat afstaða bankans engu breytt um niðurstöðu dómstóla.

„Í þessu sambandi er rétt að benda á að bæði ráðuneytin og FME höfðu á að skipa fjölda lögfræðinga sem gátu tekið sjálfstæða afstöðu til þessa álitaefnis og var í lófa lagið að afla álita óháðra aðila. Það sem máli skiptir er að upplýsingunum um það álit sem Seðlabankinn hafði aflað var komið á framfæri við viðeigandi ráðuneyti. Stjórnsýslan og stofnanir hennar stóðu hins vegar frammi fyrir mörgum vandamálum á þessum tíma, skömmu eftir hrun sparisjóðakerfisins, sem ollu miklu álagi á starfsfólk ráðuneyta og stofnana og þóttu þá meira aðkallandi en það sem hér er um rætt efnahagsnefnd ríkisstjórnarinnar."

Svar Seðlabanka Íslands í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka