Ung vinstri græn andvíg hugmyndum dómsmálaráðherra

Snærós Sindradóttir, formaður Ungra vinstri grænna.
Snærós Sindradóttir, formaður Ungra vinstri grænna.

Stjórn Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega hugmyndum dómsmálaráðherra um að auka rannsóknarheimildir lögreglunnar.

„Með því að heimila njósnir um einstaklinga án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi er ríkisvaldið komið út á næfurþunnan ís. Út frá grundvallar mannréttinda- og lýðræðissjónarmiðum verður að hafna öllum slíkum hugmyndum," segir í ályktuninni.

Ung vinstri græn segjast lengi hafa verið gagnrýnin á störf dómsmálaráðuneytisins, ekki hvað síst í stjórnartíð Björns Bjarnasonar. Það séu mikil vonbrigði, að þótt vinstristjórn sitji í landinu, hafi ekki orðið vart mikilla stefnubreytinga á sviði dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

„Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu minna á að Ragna Árnadóttir situr í skjóli VG og Samfylkingar. Ákvarðanir hennar eru því á ábyrgð þessara flokka. Sé Ragna Árnadóttir ófær um að hverfa frá þeirri stefnu og þeim áherslum sem einkenndu ráðuneyti hennar í langri valdatíð Sjálfstæðisflokksins, er best að hún víki hið fyrsta. Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu skora sérstaklega á þingflokk Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs að slá þessar áætlanir út af borðinu og standa vörð um mannréttindi. Til þess var hann kjörinn," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert