Engin aukavakt á Menningarnótt

„Ríkissáttasemjari taldi ekki ástæðu til að halda áfram viðræðunum og sleit fundinum, segir Finnur Hilmarsson, varaformaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, en fundi þeirra og launanefndar sveitarfélaganna var slitið fyrir skömmu.

„Þetta voru sömu atriði og síðast sem stóðu út af borðinu,“ segir Finnur en ekkert hefur verið rætt um hvenær næsti samningafundur verði haldinn.

Yfirvinnubann LSS heldur því áfram og ef ekki leysist úr deilunni fyrir helgi munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ekki vera við viðbúnað í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt og þegar Reykjavíkurmaraþonið fer fram.

Undanfarin ár hafa verið sjúkrabílar verið til taks á hlaupaleiðinni í Reykjavíkurmaraþoninu en slíkt er unnið í aukavinnu og verður því ekki um slíkt að ræða ef yfirvinnubannið verður enn í gildi næsta laugardag.

Þá verður enginn mannskapur frá LSS í miðborginni á Menningarnótt.

„Á Menningarnótt höfum við vanalega verið með tvo sjúkrabíla, einn slökkviliðsbíl og tvö mótorhjól tiltæk við sjúkraskýli niðri í bæ en í ár verður það ekki og mun vaktin í Skógarhlíð bara sinna neyðartilfellum ef þau koma upp.“

„Þetta er ömurlegt ástand, það er ömurlegt að fara í verkfall og þurfa að láta þetta bitna á borgurunum, við vísum bara allri ábyrgð á launanefndina.“

Yfirvinnubann LSS getur haft áhrif víða, t.d. er karlalandsleikur á dagskrá 3. september, en Knattspyrnusamband Evrópu setur það sem skilyrði að sjúkrabíll sé á vellinum þegar karlalandsleikir fara fram.

Finnur segir að slík vakt flokkist undir aukavinnu og því komi ekki til þess verði ekki búið að leysa deiluna þá.

Hins vegar sé ekki sett skilyrði um sjúkrabíl á kvennalandsleikjum svo yfirvinnubannið muni ekki trufla landsleikinn á laugardag.

Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það rétt að sáttafundurinn hafi strandað á sömu atriðum og áður. „Það ber einfaldlega of mikið á milli, því miður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert