Greiða skólagjöld fyrir atvinnulausa

Háskólinn á Bifröst er meðal þeirra skóla sem tekur þátt …
Háskólinn á Bifröst er meðal þeirra skóla sem tekur þátt í átakinu mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Vinnumálastofnun mun greiða skráningar- og skólagjöld fyrir 150 einstaklinga án atvinnu á aldrinum 20-60 ára. Um er að ræða fólk sem er á atvinnuleysisskrá en námið sem er í boði er aðfararnám í frumgreinadeildum og B.Sc. náms á háskólastigi.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, Samtök iðnaðarins, háskólar landsins og tækni- og hugverkafyrirtæki hafa efnt til sameiginlegs átaks um menntun einstaklinga í tækni- og raungreinum.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur í átakinu hafi annað hvort lokið framhaldsskólanámi eða uppfylli skilyrði til inntöku í frumgreinadeildir. Vinnumálastofnun kemur til móts við þá sem áhuga hafa á að sækja slíkt nám og fá inngöngu með því að greiða skóla- og skráningargjöld fyrir skólaárið 2010-2011, þ.e. tvær annir í fullu námi. Verkefnið er fjármagnað úr Atvinnuleysistryggingasjóði, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Eftirspurn eftir fólki með menntun í tækni- og raungreinum er mikil og fyrirsjáanlegt að hún aukist mikið á næstu árum. Til dæmis er gert ráð fyrir að það þurfi um 3.000 nýja tæknimenntaða einstaklinga á íslenskan vinnumarkað á næstu þremur árum, meðal annars innan hugverkaiðnaðarins. Iðnaðurinn býður upp á fjölbreytileg störf á sviði heilbrigðistækni, hönnunar, fata- og listiðnaðar, leikjaiðnaðar, líftækni, orku- og umhverfistækni, tónlistar-, kvikmynda- og afþreyingariðnaðar, vél- og rafeindatækni fyrir matvælavinnslu, ásamt störfum innan mannvirkjagerðar og málmtækni," segir í fréttatilkynningu.

Kynningarfundir á næstu dögum Boðið verður upp á nám í fjölmörgum greinum við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, auk náms við Háskólann á Bifröst á frumgreinasviði og námslínu um nýsköpun og við frumgreinasvið Keilis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert