„Þó svo að fæðing sé náttúrulegur atburður þá koma vandamál upp við fæðingar, hvar sem þær eiga sér stað,“ segir Hildur Harðardóttir, yfiræknir á fæðingardeild LSH.
Hún telur að heimafæðing geti verið valkostur ef reynd ljósmóðir er við störf, með aðra sér við hlið eða annan heilbrigðisstarfsmann, því aðstæður geta komið upp sem kalla á að einn aðili sinni barninu en annar móðurinni á sama tíma.
Rannsóknir, þar sem gerður var samanburður á heimafæðingum og sjúkrahúsfæðingum, hafa leitt í ljós að tvöfalt meiri hætta er á nýburadauða í fyrirhuguðum heimafæðingum en í spítalafæðingum, hjá konum án áhættuþátta í báðum tilvikum.
Þegar tekin eru frá tilvik nýbura með fæðingargalla er hættan á nýburadauða þrisvar sinnum meiri í heimafæðingum.Hildur kannast vel við heitar umræður sem hafa verið í gangi í Bretlandi og Bandaríkjunum varðandi kosti og galla heimafæðinga og segir þetta málefni afar tilfinningaþrungið.
Eins og sagt var frá á mbl.is í fyrradag hafa breskar ljósmæður gagnrýnt harðlega ummæli í ritstjórnargrein hins virta læknatímarits The Lancet, um að konur stefni lífum barna sinna í hættu með því að velja að fæða heima hjá sér frekar en á sjúkrahúsi.
Umræður innan heilbrigðisgeirans fóru af stað í kjölfar birtingu greinar í American Journal of Obstetrics and Gynecology í byrjun júli, þar sem niðurstöður úrvinnslu á 12 rannsóknum frá fimm löndum voru kynntar.
„Þetta er mjög stór rannsókn og að mínu mati mjög vel gerð,“segir Hildur.
„Gagnrýnisraddir segja m.a. að of gamlar greinar hafi verið teknar með í úrvinnslunni en mér finnst þetta efni ágætlega nálægt okkur í tíma.“ Tvær elstu greinarnar eru frá 1984 og 1985 en hinar tíu frá tímabilinu 1994-2009, þar af þrjár greinar frá 2009.
Þá hefur einnig verið gagnrýnt að ekki hafi verið nógu vel skilið á milli fyrirhugaðra og óvæntra heimafæðinga. „Þegar greinarnar 12 eru skoðaðar nánar eru langflestar sem aðgreina þetta, en sá hópur sem fæðir óvænt heima er mjög ólíkur þeim sem hefur planað heimafæðingu,“ áréttar Hildur.
Í umræðukafla greinarinnar er m.a. bent á að í vestrænum löndum sé algengasta dánarorsök dauðsfalla nýbura meðfæddir gallar og næst á eftir sé fósturköfnun, þ.e. súrefnisskortur í fæðingu.
En í tveimur heimafæðingarannsóknum hafi þessu verið öfugt farið.
Dánartíðni vegna fósturköfnunar hafi lækkað á vestrænum löndum m.a. vegna notkunar ómskoðana, fósturhjartsláttarrita fyrir og í fæðingu, mælingum á sýrustigi fósturs í fæðingu og fæðingum með keisarskurðum.
Greinarhöfundar spyrja sig því hvort lægri tíðni inngripa í heimafæðingahópnum tengist hærri tíðni fósturköfnunar.
Auk þess benda þeir á að fleiri dauðsföll vegna öndunarerfiðleika og misheppnaðrar endurlífgunar eigi sér stað við heimafæðingar.
Telja greinhöfundar mögulega skýringu á niðurstöðunum vanþekking við endurlífgun nýbura og skortur á þjálfun í þeim viðbrögðum, meðal ljósmæðra sem sinni heimafæðingum.