Hjörleifur ekki blóraböggull

Lokaður starfsmannafundur fór fram í höfuðstöðvum Orkuveitunnar í dag. Þar var nýr forstjóri kynntur fyrir starfsfólki. Fundurinn gekk vel að mati starfsfólks sem mbl.is ræddi við. Þó bar á óánægju með það hvernig þau hefðu frétt af breytingunum, en flestir starfsmenn lásu fyrst um þær í fjölmiðlum.

Hjörleifur Kvaran var í gær kallaður á fund með Haraldi Flosa Tryggvasyni, stjórnarformanni Orkuveitunnar, þar sem honum var tilkynnt að hann nyti ekki lengur trúnaðar stjórnarinnar. Því þyrfti hann að víkja úr starfi forstjóra undir eins. Í samtali við mbl.is kvaðst Hjörleifur ekki hafa fengið skýringu á því hvers vegna lægi svo á því hann hætti störfum þegar í stað.

Helgi Þór Ingason var ráðinn tímabundið í stað Hjörleifs á fundi stjórnar Orkuveitunnar í gærkvöldi. Helgi Þór er 45 ára, dósent í véla- og iðnaðarverkfræði og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnum í Háskóla Íslands. Hann lauk M.Sc. prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1991, doktorsprófi í framleiðsluferlum í stóriðju frá tækniháskólanum í Þrándheimi 1994 og SCPM prófi í verkefnastjórnun frá Stanfordháskóla 2009. Hann hefur hlotið alþjóðlega vottun  sem verkefnisstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert