Fréttaskýring: Ítrekað bent á ógn af glæpastarfsemi

Hætta er talin af starfsemi Hells Angels hér á landi.
Hætta er talin af starfsemi Hells Angels hér á landi. mbl.is/Sverrir

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur í skýrslum sínum undanfarin þrjú ár varað eindregið við þeirri ógn sem stafar af skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Jafnframt hefur verið bent á að lögreglu skortir forvirkar rannsóknarheimildir til að takast á við þessa ógn.

Eins og fram hefur komið hyggst Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra fela réttarfarsnefnd að koma með tillögur um þess háttar rannsóknarheimildir. Byggist sú ákvörðun hennar á upplýsingum um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi. Spurð hvaða upplýsingar þetta eru nákvæmlega segir Ragna við Morgunblaðið: „Við höfum fengið þær upplýsingar að lögregla þurfi auknar rannsóknarheimildir til þess að geta upprætt skipulagða glæpastarfsemi sem virðist þrífast hér á landi. Ráðuneytið mun á næstu vikum taka afstöðu til þess hvaða upplýsingar hægt er að birta, en fyrst er þó að taka málið upp og kynna á Alþingi.“

Ekki sömu möguleikar og annars staðar á Norðurlöndum

„Við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi ber að taka fram að lögreglan býr ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þess málaflokks og má því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar á Íslandi til þess að fyrirbyggja hryðjuverk eru því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndum. Þessu fylgir einnig að íslenska lögreglan hefur mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga sem kunna að fremja hryðjuverk eða taka þátt í að fjármagna slíka starfsemi.“

Í skýrslunni er jafnframt greint frá helstu ógnunum af skipulagðri glæpastarfsemi, eins og mansali, vændi, innflutningi og framleiðslu fíkniefna, skipulögðum innbrotum og þjófnuðum, peningaþvætti, fjársvikum, handrukkunum, hótunum og fjárkúgun. Þá er áhyggjum lýst af vélhjólagengjum eins og Vítisenglum. Þar sem Vítisenglar hafi náð að skjóta rótum hafi aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir hættuna á hryðjuverkum á Íslandi vera litla og hættustigið sambærilegt og á öðrum Norðurlöndum. En í skýrslunni segir ennfremur: „Hafa ber í huga að ekki er unnt að útiloka að hér á landi fari fram undirbúningur hryðjuverka sem í ráði er að fremja erlendis. Nauðsynlegt er því að yfirvöld haldi vöku sinni.“

Það er ekki hvað síst af þessari ástæðu, samkvæmt upplýsingum blaðsins, sem lögreglan telur nauðsynlegt að fá rýmri heimildir til rannsókna. Þær heimildir verða þó háðar vissum ströngum skilyrðum, eins og með úrskurði dómara, líkt og dómsmálaráðherra gaf í skyn í Morgunblaðinu í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert