Kæling afla í júlí ófullnægjandi

Kæling á afla í júlí var ófullnægjandi.
Kæling á afla í júlí var ófullnægjandi. Rax / Ragnar Axelsson

Matvælastofnun telur að kæling á lönduðum afla í júlí hafi verið ófullnægjandi. Í þeim sýnum sem tekin voru reyndist hitastigið vera að meðaltali 8,6°C, en hitastigið á að vera 0-2° sex klukkutímum eftir að fiskurinn hefur verið veiddur. Dæmi var um að hiti hafi verið 14°C við löndun. Nokkur dæmi voru um að afli væri ekki ísaður fyrr en eftir löndun.

Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa gert hitastigsmælingar á lönduðum afla í sumar. Matvælastofnun segir ekki nóg að ísa fisk. Það þurfi að gera á réttan hátt. Í frétt frá stofnuninni segir að öllum þeim sem stunda fiskveiðar og –vinnslu, ætti að vera ljóst hversu mikilvæg hröð og góð kæling á fiskinum er. Gæði fiskafurða og geymsluþol ráðast ekki hvað síst af því hversu hratt fiskurinn er kældur eftir að hann er veiddur.
 

Matvælastofnun túlkar ákvæði reglugerðar á þann veg að hitastig fisks verði að vera komið niður í hitastig bráðnandi íss (0-2°C) innan 6 klst. eftir að hann hefur verið veiddur.

Matvælastofnun hvetur sjómenn og aðra fiskverkendur að gæta vel að hitastigi hráefnisins allt frá því fiskurinn er veiddur þar til honum er skilað sem fullunninni afurð, enda hvílir sú skylda á þeim sem veiða og vinna fisk að stuðla að hámörkun verðmæta sem fást úr sjávarfangi, með því að beita góðum framleiðsluháttum í hvívetna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert