Matvælastofnun telur að kæling á lönduðum afla í júlí hafi verið ófullnægjandi. Í þeim sýnum sem tekin voru reyndist hitastigið vera að meðaltali 8,6°C, en hitastigið á að vera 0-2° sex klukkutímum eftir að fiskurinn hefur verið veiddur. Dæmi var um að hiti hafi verið 14°C við löndun. Nokkur dæmi voru um að afli væri ekki ísaður fyrr en eftir löndun.
Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa gert
hitastigsmælingar á lönduðum afla í sumar. Matvælastofnun segir ekki nóg að ísa fisk. Það þurfi að gera á réttan hátt. Í frétt frá stofnuninni segir að öllum þeim sem stunda fiskveiðar og –vinnslu, ætti að
vera ljóst hversu mikilvæg hröð og góð kæling á fiskinum er. Gæði fiskafurða og
geymsluþol ráðast ekki hvað síst af því hversu hratt fiskurinn er kældur eftir
að hann er veiddur.