Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, er kominn til landsins en hann hefur gert samkomulag við embætti sérstaks saksóknara um að hann mæti til yfirheyrslu á morgun. Hefur eftirlýsing eftir Sigurði jafnframt verið fjarlægð af vef alþjóðalögreglunnar Interpol.
„Handtökuskipunin var gefin út þar sem hann sinnti ekki kvaðningu, en ætli menn sér að sinna kvaðningu þarf ekki að handtaka þá,“ segir Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari í samtali við mbl.is en vill að öðru leyti ekki tjá sig á þessu stigi málsins um framkvæmd þess.
Nokkrir fyrrum stjórnendur Kaupþings voru handteknir í maí í kjölfar þess að þeir voru boðaðir í yfirheyrslur og sátu í gæsluvarðhaldi um tíma í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á skjalafalsi, auðgunarbrotum, brotum gegn lögum um verðbréfaviðskipti – meðal annars markaðsmisnotkun – og brotum gegn hlutafélagalögum.
Sigurður var einnig boðaður í yfirheyrslur en sinnti ekki þeim boðum. Fór Ólafur Þór Hauksson á fram á það að
alþjóðleg handtökuskipun yrði gefin út á hendur Sigurði.