Allir starfsmenn Þjóðkirkjunnar verða beðnir um að samþykkja að heimila aðgang að sakaskrá sinni með tilliti til skimunar vegna kynferðislegs ofbeldis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu kirkjuráðs sem gefin var út í dag.
Fréttatilkynningin er í tilefni af fundi kirkjuráðs í gær með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, sem óskað hafði eftir fundi með ráðinu til að segja sögu sína. Í tilkynningunni segir m.a.:
„Áður hafði hún [Guðrún Ebba] sent erindi og átt fund með biskupi þar sem hún vildi brýna kirkjuna til að taka skýra afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi og lýsa það vera synd. Í framhaldi af því hófu biskup og kirkjuráð endurskoðun m.a. á reglum frá 1998 um fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar. Þá voru og samdar siðareglur sem samþykktar voru á kirkjuþingi 2009 og taka til presta og djákna og alls starfsfólks kirkjunnar svo og sjálfboðaliða.
Í samræmi við siðareglurnar er nú að fara af stað átak þar sem allir starfsmenn kirkjunnar verða beðnir um að samþykkja að heimila aðgang að sakaskrá m.t.t. kynferðislegs ofbeldis, svonefnd skimun.
Kirkjuráð ítrekar að þjóðkirkjan hefur tekið skýra afstöðu gegn ofbeldi gegn konum og börnum. Þjóðkirkjan stendur með þeim einstaklingum og samtökum sem vinna með þolendum ofbeldis svo og þeim sem stuðla að vitundarvakningu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál.“