Trúnaður myndaðist aldrei

Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir aldrei hafa myndast …
Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir aldrei hafa myndast trúnaður á milli hans og hins nýja stjórnarformanns, Haraldar Flosa Tryggvasonar.

„Hann kallaði mig inn á sinn fund í gær og til­kynnti mér að ég nyti ekki trúnaðar stjórn­ar­inn­ar. Því væri nauðsyn­legt að ég viki úr starfi," seg­ir Hjör­leif­ur Kvar­an, frá­far­andi for­stjóri Orku­veitu Reykja­vík­ur, í sam­tali við mbl.is.

Har­ald­ur Flosi Tryggva­son, starf­andi stjórn­ar­formaður OR, sagði hon­um upp störf­um í gær og óskaði eft­ir því að hann léti strax af störf­um.

Hjör­leif­ur seg­ir að ekki hafi verið til­greint sér­stak­lega hvers vegna lægi á því að hann hætti störf­um strax. Aðspurður hvort trúnaðarbrest­ur hafi orðið á milli hans og stjórn­ar­for­manns­ins seg­ir Hjör­leif­ur: „Að mínu mati hef­ur ekki orðið neinn trúnaðarbrest­ur því það þarf að vera til staðar trúnaður til þess að hann geti brostið."

Vel hafi gengið að vinna með sex síðustu stjórn­ar­for­mönn­um Orku­veit­unn­ar, en aldrei hafi mynd­ast gott sam­band á milli hans og Har­ald­ar Flosa. „Hverju þar er um að kenna kann ég ekki að segja," seg­ir Hjör­leif­ur.

Ekki ánægður með út­tekt­ina

26. júlí skilaði Hjör­leif­ur inn út­tekt á stöðu Orku­veit­unn­ar í heild sinni, að beiðni Har­ald­ar Flosa. Hann kveðst hafa fengið nokkuð knapp­an tíma til að gera út­tekt­ina og unnið að henni nótt og dag í sam­starfi við alla fram­kvæmda­stjóra Orku­veit­unn­ar og fleiri starfs­menn. Með út­tekt­inni hafi fylgt til­lög­ur að því hvernig mætti bæta fjár­hags­stöðu fyr­ir­tæk­is­ins á næstu árum.

„Ég held að hann hafi hvorki verið ánægður með út­tekt­ina né til­lög­urn­ar," seg­ir Hjör­leif­ur um viðbrögð Har­ald­ar Flosa. Til­lög­urn­ar hafi byggt á hóf­leg­um gjald­skrár­hækk­un­um og sparnaðaraðgerðum sem bitnuðu ekki of illa á starfs­fólki. Nú hafi stjórn­in fengið þess­ar til­lög­ur í hend­ur og ætli svo að móta sín­ar eig­in. Þá muni koma í ljós sá mun­ur sem hafi verið á áhersl­um Har­ald­ar og sín­um.

Eng­inn sá þetta fyr­ir

Hjör­leif­ur hafði von­ast til þess að menn myndu standa sam­an í gegn­um næstu mánuði, sem hann seg­ir mjög krí­tíska fyr­ir OR. Fyr­ir­tækið sé í mjög erfiðri stöðu. En ber Hjör­leif­ur ekki ábyrgð á þeirri stöðu?

„Ég get ómögu­lega tekið það á mig að ég beri ábyrgð á því efna­hags­hruni sem hér hef­ur orðið. Flest­ar þær ákv­arðanir sem við erum að vinna eft­ir, um virkj­an­ir og stór­fram­kvæmd­ir sem er verið að fram­kvæma, voru tekn­ar löngu fyr­ir þá tíð þegar ég sett­ist í for­stjóra­stól­inn. Ég var ráðinn for­stjóri Orku­veit­unn­ar 19. sept­em­ber 2008. Ef ég hefði séð hrunið fyr­ir sem varð í októ­ber og það sem því fylgdi, hálf­um mánuði eft­ir að ég var ráðinn, þá hefði ég aldrei tekið við þessu starfi. Það bara sá þetta eng­inn fyr­ir, hvorki við né aðrir."

Hann seg­ir að á vik­un­um fyr­ir hrun hafi stjórn­end­ur OR verið að gera góða lána­samn­inga til að tryggja fram­kvæmda­fé til að standa und­ir þeim ákvörðunum sem þegar höfðu verið tekn­ar.

„En þegar hrunið skall á drógu all­ir er­lendu bank­arn­ir lán­in nán­ast til baka. Eitt lánið tók 14 mánuði eft­ir hrun að ná út. Ég get ómögu­lega tekið á mig ábyrgð á því," seg­ir Hjör­leif­ur.

Helgi Þór Inga­son verk­fræðing­ur og dós­ent hef­ur verið sett­ur tíma­bundið í starf for­stjóra og tekið fram að hann verði ekki ráðinn til framtíðar. Hjör­leif­ur seg­ir það ekki traust fyr­ir Orku­veit­una að fá bráðabirgðastjórn­anda á þess­um tíma­punkti. „Það sem þarf núna er styrk stjórn og öfl­ug­ur for­stjóri, en ekki bráðabirgðalausn­ir."

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert