Yfirheyrsla í fyrramálið

mbl.is/Brynjar Gauti

Alþjóðleg handtökuskipun á hendur Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, hefur verið í gildi frá 11. maí þar til í dag, er Sigurður kom til Íslands til að hlíta kvaðningu sérstaks saksóknara. 

Þann tíma hefur Sigurður dvalið í Lundúnum, þar sem hann á heimili, en virðist nú hafa komist að samkomulagi við sérstakan saksóknara um að mæta til yfirheyrslu.

Sigurður kom heim síðdegis í dag með farþegaflugi og var haft eftir sjónarvottum í kvöldfréttum RÚV að lögmaður hans á Íslandi, Gestur Jónsson, hafi sótt Sigurð í Leifsstöð.

Það er því ljóst að Sigurður kemur heim í samráði við sérstakan saksóknara sem hefur látið fella úr gildi handtökuskipunina sem gefin var út þegar Sigurður neitaði að koma til landsins til yfirheyrslu.

Sérstakur saksóknari vildi ekkert tjá sig um málið að svo stöddu en á fréttavef RÚV segir að Sigurður Einarsson eigi að mæta til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara klukkan níu í fyrramálið.

Yfirheyrslurnar tengjast rannsókn sérstaks saksóknara á efnahagsbrotum innan bankans og handtöku tveggja fyrrverandi stjórnenda bankans í vor, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni og Magnúsi Guðmundssyni.

Efnahagsbrotin felast í skjalafalsi, auðgunarbrotum, brotum gegn lögum um verðbréfaviðskipti – meðal annars markaðsmisnotkun – og brotum gegn hlutafélagalögum. 

Sigurður var starfandi stjórnarformaður og var því mun meira viðriðinn daglegan rekstur bankans og ákvarðanir heldur en hefðbundir stjórnarformenn í fyrirtækjum eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert