Bindiskyldan óframkvæmanleg

Selfoss.
Selfoss. www.mats.is

Bindiskylda - eða bindisskylda - katta í Árborg hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar og oddviti sjálfstæðismanna, telur víst að bindisskyldan sem sett var á kettina í fyrra verði afnumin á bæjarstjórnarfundi í næsta mánuði.

Eyþór lagði fram tillögu þess efnis á bæjarstjórnarfundi í gær að afnema bann við því að kettir megi ekki vera óbundnir útivið á Selfossi. Hann segir að reglugerð um kattahald hafi verið sett árið 2005. Í fyrra var svo sett bindiskylda á kettina.

„Við teljum að það sé ekki raunhæft að halda því áfram,“ sagði Eyþór í samtali við mbl.is. Hann segir ýmislegt mæla með því að afnema þetta ákvæði. Meðal annars að erfitt sé að framfylgja ákvæðinu með góðu móti og fólk hafi almennt ekki farið eftir því.

Þá ályktaði Dýralæknafélagið vegna málsins í sumar og taldi bindiskylduna fara gegn eðli katta. Það vakti einnig athygli á umræðu um málið í Hollandi.

„Við lögðum til í gær að bindiskyldan yrði aflögð. Það er búið að afnema hana á Alþingi - okkur fannst því ótækt að kettir væru með bindisskyldu,“ sagði Eyþór. Hann kvaðst eiga von á að nokkuð góð samstaða verði um málið og að menn hafi áttað sig á að farið hafi veirð of geyst í þessu máli.

Eyþór sagði skylt að skrá, merkja og bólusetja kettti í Árborg. Það sé lykilatriði að hafa reglur sem séu raunhæfar og sanngjarnar og ekki síst þannig að hægt sé að fara eftir þeim.

„Í kosningabaráttunni sögðumst við ætla að hafa taumhald á eyðslunni og okkur finnst það meira forgangsmál en að hafa taumhald á köttunum,“ sagði Eyþór.

Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert