Dómari víkur ekki sæti

Fjölmenni var í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag þegar mál nímenninganna …
Fjölmenni var í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag þegar mál nímenninganna var tekið fyrir. mbl.is/Jakob Fannar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu um að dómari í máli níu einstaklinga, sem ákærðir eru fyrir að hafa ráðist gegn Alþingi, víki sæti. 

Ragnar Aðalsteinsson, sem er verjandi fjögurra sakborninga, krafðist þess að dómarinn viki sæti og rökstuddi kröfuna  með því að, dómarinn í málinu hafi með því að hafa lögreglu í dómhúsinu nánast fyrirfram lýst yfir sekt sakborninganna og komið í veg fyrir að þeir njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, eins og þeim er áskilinn í stjórnarskrá.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, segir í niðurstöðu sinni, að ávörðun um að hafa lögreglu tiltæka í dómhúsinu, sé ekki beint gegn ákærðu í málinu heldur miði hún að því að tryggja frið og reglu í þinghöldunum og þar með að því að gæta réttar og hagsmuna allra málsaðila. 

„Verður ekki séð að dómarinn hafi með þessari ákvörðun sinni fyrirfram lýst yfir sekt á hendur ákærðu eða komið með henni í veg fyrir það að þeir njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.  Ber að synja kröfu ákærðu um það að dómarinn í málinu víki sæti í því," segir í niðurstöðu Péturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert