Færeyskir sjúklingar hingað

Landspítali hefur gert samning um þjónustu við sjúklinga frá Færeyjum.  Samkvæmt samningnum verður sjúklingum, sem Færeyingar þurfa að senda til annarra landa vísað til Landspítala til jafns við önnur norræn háskólasjúkrahús. 

Jafnframt munu aðilar samningsins efla samvinnu sína með það í huga að færeyskum sjúklingum, sem þurfa á þjónustu erlendra sjúkrahúsa að halda, verði í vaxandi mæli beint til Landspítala. Til þessa hafa sjúklingar í Færeyjum aðallega verið sendir til Danmerkur og Svíþjóðar.

Þetta er fyrsti samningurinn sem gerður er við annað land um alhliða sjúkrahúsþjónustu á Íslandi.  Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, og Poul Geert Hansen, ráðuneytisstjóri færeyska heilbrigðismálaráðuneytisins, skrifuðu undir samninginn í Þórshöfn í dag. Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, og Aksel V. Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, staðfestu samninginn jafnframt með undirritun sinni.

Um er að ræða rammasamning um sölu sjúkrahúsþjónustu Landspítala.  Kaupandi er færeyska  heilbrigðisráðuneytið fyrir hönd landssamtaka sjúkrahúsa í Færeyjum. 

Samningurinn nær til hvers konar sjúkrahúsþjónustu, þar á meðal greiningarrannsóknir, meðferð og eftirlit á legudeildum, dag- og göngudeildum, auk dvalar á sjúkrahóteli sé þess þörf fyrir sjúkling og/eða fylgdarmenn hans. Á grunni hans má semja um frekari samvinnu, svo sem að læknar Landspítala veiti þjónustu á sjúkrahúsum í Færeyjum.

Greitt verður fyrir þjónustuna samkvæmt verðskrá Landspítala sem byggð er á kostnaðargreiningu allrar þjónustu spítalans.

Að sögn Landspítala skapar samningurinn grundvöll að frekara samstarfi, t.d. um meðferð sjaldgæfra sjúkdóma. Hann stuðlar að meiri nýtingu mjög dýrra tækja og búnaðar og hraðari endurnýjun á honum. Samningurinn getur líka aukið möguleika Landspítala á að taka upp nýja þjónustu sem áður hafi verið veitt erlendis þar sem fleiri sjúklingum stæði hún til boða nú en áður. Þannig geti líka skapast tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk með sérstaka þjálfun að flytja heim til Íslands og fá starf við hæfi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert