Það var fátt um svör hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara og Sigurði Einarssyni, fyrrum stjórnarformanni Kaupþings í hádegishléi sem gert var á yfirheyrslu Sigurðar í dag. Sigurður mætti á skrifstofu sérstaks saksóknara um níuleytið í morgun og kom ekki út fyrr en klukkan var að ganga eitt.
Sigurður sagði við fréttamenn við komuna í morgun að hann hafi komið til skýrslutöku nú þar sem hann hafi talið þetta rétta tímann. Sigurður segist vera með hreina samvisku og hann viti ekki hve lengi hann dvelji á landinu.
Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir Sigurði í maí vegna þess að hann sinnti ekki óskum sérstaks saksóknara um að koma í skýrslutöku. Yfirlýsingin hefur nú verið fjarlægð af vef Interpol.