Söfnun fyrir áframhaldandi rekstri sumarbúða lamaðra og fatlaðra í Reykjadal gengur gríðarlega vel og hafa safnast um 18 milljónir inn á styrktarreikning að frátöldum söfnunarsíma.
Nú hefur Soroptimistaklúbburinn á Seltjarnarnesi bæst í hópinn en klúbbsystur ákváðu að styrkja Reykjadal um 1,2 milljónir króna en þær hafa verið gjafmildar og styrkt ýmis málefni í gegnum tíðina og þá einna helst einhverf börn.
Starfsfólk Reykjadals hélt í göngu frá Laugalandi í Holtum í fyrradag í því skyni að safna áheitum. Gengu þau til Reykjadals og þaðan til Reykjavíkur í gær og lentu á Háaleitisbraut 11-13 um tvöleytið í húsi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þau voru með hjólastóla meðferðis og fengu þau nokkur þekkt andlit til að ferðast með sér í hjólastólum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.