Saurmengað vatn á Þingvöllum

Sumarbústaðaeigandi á svæðinu náði myndum af því þegar starfsmenn Holræsa- …
Sumarbústaðaeigandi á svæðinu náði myndum af því þegar starfsmenn Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands losuðu seyruvökva í moravaxinn kjarrmóa. mbl.is

Niðurstöður mælinga sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands framkvæmdi á grunn- og neysluvatni í landi Kárastaða á Þingvöllum sýna verulega saurkólímengun í vatninu.

Sumarbústaðaeigendur á svæðinu þurfa því að sjóða allt neysluvatn og sömuleiðis er fólk varað við berjatínslu á svæðinu. Mengunin getur varað allt að því mánuð í grunnvatni. Neysla vatnsins getur valdið slæmri magaveiki.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur fundað um málið í dag.

„Niðurstöðurnar sýna það mikla mengun í drykkjarvatni sumarbústaða á svæðinu að það er ekki drykkjarhæft og sömuleiðis er yfirborðsvatn á svæðinu mjög mengað,“ segir Birgir Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á umhverfis og mengunarsviði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Hann segir að áfram verði fylgst með svæðinu.

Stafsmenn Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands voru síðasta föstudag staðnir að verki við að losa seyruvökva í mosavaxinn kjarrmóa sem liggur innan vatnsverndarsvæðis Þingvallavatns.

Samtök sumarbústaðaeigenda á svæðinu kærðu í gær atvikið til lögreglu og hefur heilbrigðiseftirlitið veitt eiganda stífluþjónustunnar áminningu. Slík áminning getur verið undanfari þess að fyrirtækið missi starfsleyfið. Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands var einnig gert að hreinsa upp eftir sig, þar á meðal dæla upp úr tjörnum á svæðinu. Einnig þarf fyrirtækið að greiða fyrir allar rannsóknir heilbrigðiseftirlitsins á vatninu.

„Þetta er óafsakanlegt og við lítum svo á að fyrirtækið geti með engum hætti komið með skýringar sem eru boðlegar eða mark á takandi fyrir þessum atburði,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann segir mjög stangar reglur gilda um mengunarvarnir á Þingvöllum og því verði málinu fylgt eftir.

„Hér eftir munum við standa fyrir auknu eftirliti. Hingað til hefur ekki verið talin ástæða fyrir slíku en við munum ekki sætta okkur við að svona gerist aftur.“

Þjóðgarðurinn hyggst setja upp viðeigandi merkingar á svæðinu.

Saurmengun mældist í neysluvatni sumarbústaða í landi Kárastaða á Þingvöllum.
Saurmengun mældist í neysluvatni sumarbústaða í landi Kárastaða á Þingvöllum. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert