Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, segir að ráðist hafi verið á Björgvin Björgvinsson, lögreglumann, af ofstæki fyrir ummæli sem Björgvin lét falla í viðtali við DV.
Í pistli sem Brynjar ritar á vef Pressunnar segir hann að umræðan hafi verið ofstækisfull en Björgvin lét í ljós þá skoðun í viðtalinu að fórnarlömb nauðgana hefðu stundum getað minnkað líkur á broti með því að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni. Fólk setti sjálft sig í aukna hættu með drykkju og dópneyslu.
„Sagt var að hann væri að kenna fórnarlömbunum um glæpina. Þessi ásökun var auðvitað fáránleg. Lögreglumaðurinn var einungis að hvetja til þess að fólk forðaðist að setja sjálft sig í aðstöðu þar sem meiri hætta væri á að brotið yrði gegn því. Menn ættu að fagna slíkri hvatningu frá lögreglumanni sem áreiðanlega veit vel hvað hann er að tala um. Það er fjarstæða að telja hann hafa gefið í skyn að óábyrg hegðun fórnarlambs að þessu leyti réttlætti nauðgunina. Hann var aðeins að vara fólk við. Svona rétt eins og lögregla varar fasteignaeigendur við innbrotum í hús og hvetur þá til að setja upp öryggiskerfi. Í því felst auðvitað engin réttlæting fyrir innbrotum.
Auðvitað féllu yfirmenn lögreglunnar á þessu prófi. Þeir eru lafhræddir við rétttrúnaðarfólkið og Björgvin var því fluttur til í starfi.
Eftir stendur þá spurningin: Mun sá sem við tekur láta afstöðu ofstækismanna ráða vinnubrögðum lögreglunnar við rannsóknir á nauðgunarbrotum?, skrifar Brynjar í pistli sínum á Pressunni.