Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, er mættur í húsnæði embættis sérstaks saksóknara en hann verður yfirheyrður þar í dag. Sigurður kom til landsins í gær, en meira en þrír mánuðir eru síðan saksóknari óskaði eftir að hann kæmi til landsins í skýrslutöku. Kom Sigurður á skrifstofu embættisins klukkan níu.
Hann sagði við fréttamenn við komuna að hann hafi komið til skýrslutöku nú þar sem hann hafi talið þetta rétta tímann. Sigurður segist vera með hreina samvisku og hann viti ekki hve lengi hann dvelji á landinu.
Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir Sigurði í maí vegna þess að hann sinnti ekki óskum sérstaks saksóknara um að koma í skýrslutöku. Yfirlýsingin hefur nú verið fjarlægð af vef Interpol.
„Handtökuskipunin var gefin út þar sem hann sinnti ekki kvaðningu, en ætli menn sér að sinna kvaðningu þarf ekki að handtaka þá,“ sagði Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið á þessu stigi.
Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar, vildi í gær ekki tjá sig um hvort gert hefði verið sérstakt samkomulag við Sigurð áður en hann kom heim. Hann staðfesti einungis að skýrsla yrði tekin af Sigurði í dag.
Þrír af fyrrverandi stjórnendum Kaupþings voru handteknir í maí í kjölfar þess að þeir voru boðaðir í yfirheyrslur. Þeir sátu í gæsluvarðhaldi um tíma í tengslum við rannsókn málsins.
„Mjög umfangsmikil, kerfisbundin og skipulögð.“ Þannig lýsti sérstakur saksóknari meintri markaðsmisnotkun Kaupþingsmanna í greinargerð með gæsluvarðhaldskröfu yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, þegar hún var lögð fram í maí. Rannsóknin varðar grun um skjalafals, auðgunarbrot, brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti – m.a. markaðsmisnotkun – og brot gegn hlutafélagalögum.