Frítt verður í strætó á höfuðborgarsvæðinu fyrir almenning á Menningarnótt í Reykjavík á morgun. Jafnframt verður þjónusta strætó stóraukin og ekið samkvæmt tíðni og tímatöflu margra leiða að degi til í miðri viku.
Ekið verður samkvæmt tíðni og tímatöflum sem tíðkast venjulega á virkum dögum á leiðunum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 13, 14, 15, 17, 18 og 19. Um kvöldið verður áfram ekið á þessum leiðum eins og um dagtíma sé að ræða, þ.e. á hálftíma fresti. Aðrar leiðir en fyrrnefndar munu aka samkvæmt hefðbundinni laugardagsáætlun. Jafnframt mun strætó keyra lengur fram eftir kvöldi en vanalega og munu síðustu ferðir úr miðbænum fara frá Vonarstræti og Hlemmi um kl. 01:00, samkvæmt tilkynningu frá Strætó.
Vakin skal athygli á því að margar götur í miðbænum verða lokaðar allan daginn vegna Reykjavíkurmaraþons og hátíðahalda Menningarnætur og því breytist akstur strætó verulega um miðbæinn frá því sem hefðbundið er.
Sérstaklega má benda á að allir vagnar sem vanalega aka frá Lækjartorgi munu aka frá Ráðhúsinu við Vonarstræti frá kl. 16 og fram eftir kvöldi. Fólk er því hvatt til að kynna sér akstur Strætó um miðbæinn á vef Strætó, þar sem m.a. má finna kort með breyttum akstursleiðum Strætó á Menningarnótt.
Ítarlegar upplýsingar um breyttan akstur:
„Vegna maraþonshlaups munu eftirtaldar götur verða lokaðar allan daginn: Sæbraut (milli Lækjargötu og Dalbrautar) – Geirsgata - Mýrargata – Hverfisgata – Lækjargata. Á tímabilinu 06:45 til 16:00 verða Vonarstræti, Fríkirkjuvegur, Skothúsvegur og Sóleyjargata jafnframt lokuð. Fram til kl. 16:00 munu vagnar á leið að miðbænum því aka frá Hlemmi um Snorrabraut og Hringbraut að Melatorgi og snúa þar við á leið út í hverfi. Sami háttur verður þegar ekið er frá hverfum að Hlemmi, þá er tekinn snúningur á Melatorgi. Vagnar aka venjulega leið um Vesturbæ en aka ofannefnda leið að og frá Hlemmi.
Eftir kl. 16:00 verður breyting, því þá munu vagnar á leið út í hverfi frá Hlemmi aka af gömlu Hringbraut um Sóleyjargötu, Fríkirkjuveg, Vonarstræti, Suðurgötu og aftur að Hringbraut. Á sama hátt munu vagnar sem eru á leið að Hlemmi aka um Skothúsveg, Sóleyjargötu, gömlu Hringbraut og Snorrabraut.
Aðrar breytingar:
Leið 5 mun aka milli Sæbrautar og Hlemms eftir Dalbraut og Sundlaugarvegi að og frá Borgartúni. Biðstöðvarnar við Kirkjusand á Sæbraut munu því ekki vera í notkun auk þess sem leiðin mun ekki aka um Klettagarða.
Leið 12 mun aka hefðbundna leið um Sæbraut og Kleppsveg, að og frá Hlemmi.
Leið 14 mun aka um Ánanaust og Hringbraut í báðar áttir," segir í tilkynningu frá Strætó.