Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hefst í dag. Helsingja er leyfilegt að veiða frá 1. september utan Skaftafellssýslna en þar má ekki veiða helsingja fyrr en 25. september.
Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar, að tilgangur friðunar á helsingja í Skaftafellssýslum sé að vernda þann varpstofn sem hefur verið að ná fótfestu á undanförnum árum. Helsingi verpi ekki á Íslandi nema í Skaftafellssýslum svo vitað sé og þyki því sérstök ástæða til þess að veiðimenn sýni aðgát á þessu svæði. Blesgæs er áfram friðuð eins og undanfarin ár.
Grágæsastofninn er áætlaður 100.000 fuglar, heiðagæsastofninn 350.000 fuglar og helsingjastofninn 70.000 fuglar. Þessar áætlanir miðast við talningar 2008.