Ríkissáttasemjari boðaði fulltrúa Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og launanefndar sveitarfélaga á fund í dag. Þar lagði hann fram sáttatillögu sem aðilar skrifuðu undir og er verkfallsaðgerðum þar með frestað þar til atkvæðagreiðsla hefur farið fram meðal slökkviliðsmanna.
Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslunni verði lokið á hádegi þann 31. ágúst. Slökkviliðsmenn hafa verið í yfirvinnubanni og hafa farið þrívegis í dagslöng verkföll. Það fjórða var boðað á föstudag eftir viku.
Að sögn Sverris Björns Björnssonar, formanns Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, verður öllum verkfallsaðgerðum frestað þar til kosningunni lýkur og í ljós kemur hvort félagsmenn samþykkja samninginn eða ekki. Slökkviliðsmenn munu því á nýjan leik bera boðtækin sem þeir skiluðu inn föstudaginn 23. júlí og tilkynntu að þeir myndu ekki bera fyrr en búið væri að ná nýjum samningumkjarasamningum.
Nú tekur að sögn Sverris við að kynna samningin fyrir félögum fram að kosningu.