Ásakanir lögreglumanna skoðaðar

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is/Júlíus

Ásakanir Landssambands lögreglumanna um að yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu breyti skýrslum lögreglumanna til að fegra stöðu mála hafa ekki verið til umfjöllunar í dómsmálaráðuneytinu en verða nú skoðaðar í samræmi við tilefnið að sögn skrifstofustjóra.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að borið hafi á því um nokkurt skeið að skýrslum lögreglumanna sé breytt til að draga úr alvarleika málanna sem þeir sinna. Tilgangurinn sé að sýna betri árangur og vera nær því að ná settum markmiðum.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir ekkert hæft í þessum ásökunum.

Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri löggæslu- og dómsmálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, segir að málið sé ekki til skoðunar eða afgreiðslu í ráðuneytinu enda ekki borist formlegt erindi vegna þess. Hann segir að málið verði nú athugað, í ljósi opinberra athugasemda Landssambands lögreglumanna, eftir því sem þær gefi tilefni til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert