„Við nálgumst ríkisfjármálin með varfærnum hætti og tökum aldrei neitt út fyrirfram. Þó að horfur séu kannski að batna sumpart, þá viljum við sjá það í húsi áður en við tökum út á það.“
Þannig mælir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, aðspurður hvort horfur í ríkisfjármálum gefi það til kynna að ekki þurfa að grípa til frekari skattahækkana.
Frá því var greint í Morgunblaðinu í gær að væri miðað við 9% niðurskurð í útgjöldum ríkisins á næsta ári mætti reikna með að hallinn yrði töluvert lægri en sá sem samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerði ráð fyrir. Því þyrfti ekki að grípa til skattahækkana til að brúa bilið.
Steingrímur segir þetta ekki rétt. Niðurskurðarhlutfallið sé breytilegt, auk þess sem mæta þurfi auknum vaxtakostnaði ríkissjóðs og auknu atvinnuleysi.