Stórtónleikar Rásar 2 og Nova fóru fram á Arnarhóli í kvöld. Tugþúsundir fólks voru samankomnar að hlýða á Ingó Veðurguð, Gunnar Þórðarson og hljómsveitirnar Dikta, Grafík, Pollapönk og Rokkestra. Tónleikarnir voru í beinni útsendingu á Rás 2 og fylgjast mátti með Arnarhóli á vefmyndavél á mbl.is.
Tónleikarnir stóðu yfir til kl. 23 í kvöld þegar flugeldasýning fór fram í boði annars símafyrirtækis, Vodafone, og lauk þar með dagskrá Menningarnætur. Heldur kalt var í veðri en fólk lét það ekki á sig fá og tók fram viðeigandi hlífðarföt. Ingó Veðurguð stjórnaði brekkusöng á hólnum að hætti Eyjamanna og síðastur á sviðinu var Gunnar Þórðarson ásamt hljómsveit, þar sem hann kyrjaði öll gömlu góðu lögin.
Búist var við allt að 100 þúsund manns í miðbæinn. Að sögn lögreglunnar hefur Menningarnótt til þessa farið mjög vel fram og engin alvarleg tilfelli komið upp.
Flekabrennu frestað vegna veðurs
Kuldinn og norðangarrinn gerði það hins vegar að verkum að ákveðið var að fresta listaviðburðinum 22 Brennandi flekar, sem átti að fara fram kl. 23.30 í kvöld út á sjó við Sæbrautina. Stefnt er að því að viðburðurinn verði á mánudagskvöldið kl. 22. Kveikja átti í 22 flekum rétt eftir flugeldasýninguna og áttu þeir að brenna í sjónum fram á miðnætti. Höfundar verksins eru Óskar Ericsson og Alisha Piercy og ákváðu þau í samráði við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að fresta gjörningnum vegna veðurs.